Um mig

Ég heiti Kristín og er búsett ásamt fjölskyldu minni í fallegri sveit við Eyjafjörð. Ég er hjúkrunarfræðingur og hef yndi af starfinu mínu. Í frístundum er ég síðan haldin einlægum áhuga á fallegum gömlum munum og að föndra úr ýmsu sem til fellur. Ekki síst finnst mér spennandi að finna gömlum hlutum nýtt hlutverk þegar þeir hafa tapað upphaflegu notagildi. 

endurnýting á krukkum

 

Ég hef líka sérlega gaman af því að taka myndir af gömlum munum, helst úti í náttúrunni. Upp úr því áhugamáli er Blúndu og blóma dagatala flóran mín sprottin. Með dagatölunum langar mig að færa notalega stemningu inn á heimlin... ofurlitla birtu, bjartsýni og notalegheit... og létta um leið skipulag og yfirsýn fólks yfir það sem um er að vera í lífi þess. Nú að hausti 2017 líta svo dagsins ljós í fyrsta skipti tækifæriskort með myndunum mínum og textunum mínum úr dagtölunum, alls tólf kort sem verða seld saman í pakka. Loks hef ég gefið út samúðarkort sem smám saman verða vonandi fáanleg í blómabúðum og/eða ýmsum öðrum sérverslunum.

Lífið er svo dýrmætt og það er svo mikið í húfi að fara vel með það. Njótum gefandi samverustunda. Gerum samverustundir gefandi! Það er okkar að móta lífið okkar, fylla það fegurð, hamingju og réttlæti. Njóta þess að skapa, ljá hugmyndum okkar vængi. Að glæða vonir og gefa af okkur. Það er svo innilega þess virði, allt saman.

Verið hjartanlega velkomin á Blúndu og blóma síðuna mína, ég vona að hún geti á einhverjum tímapunkti veitt ykkur innblástur... eða í það minnsta stytt ykkur stundir þegar þörf er á.

Með hlýjum kveðjum, 

ykkar einlæga.