Við fögnum nýjum árgangi!

Nú styttist í árlega Útgáfugleði mína sem að þessu sinni verður margföld að stærð þar sem ég mun nú líka opna niður á neðri hæðina og halda sýningu og sölu um allt hús, okkur öllum til ánægju og yndisauka. Hátt á annan tug sölu- og sýningaraðila verður hérna auk mín með Blúndu og blóma útgáfuna og boðið upp léttar veitingar og alls konar upplifun að auki. 

Ef veður leyfir verður snarkandi eldur hér úti við sem ætti að ilma vel á móti ykkur þegar þið komið og inni verður hlýtt, bjart og elskulegt andrúmsloft þar sem glaðværð og samkennd ræður ríkjum. Spákonur spá í spil, hægt verður að fá hitapoka og herðanudd og í stofunni á efri hæðinni verður pússaður upp og málaður gamall rococo stóll í sýnikennslu þannig að hægt verði að læra af. Rithöfundur áritar nýútkomna bók sína og söngkona  tekur lagið fyrir okkur á laugardeginum. Alla helgina verður svo hægt að taka þátt í lukkuleiknum okkar litla þar sem vinningslíkur aukast við hverja verslun ;) Ef vel viðrar mun Margrét systir mín opna Flóamarkaðinn í skemmunni við veginn hér í Sigluvík en hann er annars að mestu kominn í vetrardvala.

Allt þetta má lesa enn frekar um og fylgjast með í viðburðinum sem stofnaður hefur verið á facebook, Útgáfugleði Blúndu og blóma, hönnun og handverk á tveimur hæðum!

Með von um að þið lítið við hjá okkur hér í Sigluvík á Svalbarðsströnd (601 Akureyri) þessa helgi, 17.- 18. nóvember og njótið með okkur úrvalsins sem hér verður af alls konar hönnun og handverki sem fæst ekki á hverju strái.

Opið laugardaginn 17.nóv. kl. 13-22 og sunnudaginn 18.nóv. kl. 13-17. 

Með hlýjum kveðjum,

f.h. fjölskyldunnar og alls hópsins sem að deginum kemur,

ykkar einlæga.


Athugasemdir