Þegar klukkan gamla varð að Maríuskáp...

Fyrir nokkrum árum var mér gefin gömul falleg stofuklukka með biluðu gangverki. Sjálf átti ég reyndar svipaða klukku fyrir, nema bara enn stærri, en sú klukka gengur í arf innan fjölskyldunnar og mig myndi ekki langa til að breyta henni. Það var hins vegar þannig fyrir hinni klukkunni komið að engan langaði svo sem að eiga hana, gangverkið var úr sér gengið og vantaði auk þess hluta tréskratsins á klukkuna. Ég þáði því klukkuna með þökkum þegar mér var boðin hún og skellti henni upp á nagla í sjónarvarpsherberginu þar sem hún hefur hangið síðan og bara tekið sig ágætlega út. Klukkuverkið er sérlega fallegt þó bilað sé en ég sé á þessari mynd sem ég á af klukkunni fyrir breytingu að mér hefur þótt klukkan full dökk, er þarna búin að skutla á hana hvítri bjölluseríu til að lýsa aðeins upp. 

stofuklukka fyrir

Eins og sést þá vantar svolítið af tréskrauti framan á hana og þó það sjáist minna þá vantar líka tréverk sem hefur átt að koma niður úr henni. Það sem ég ætlaði mér að gera við þessa klukku var að breyta henni einhvern tímann í skáp fyrir Maríustyttu. Þær sem ég átti voru reyndar ýmist of stórar eða litlar í skápinn en í sumar fór ég í frí til Krítar og þar fann ég Maríu sem myndi passa vel, svo það var loksins hafist handa við breytingar á dögunum. 

Mig langaði að hafa gamaldags "shabby chic" útlit á klukkunni og lýsa hana heilmikið upp án þess þó að gera hana alveg hvíta. Og þá kom hún Stína Sæm. hjá Svo margt fallegt og Milk Paint málningin hennar til sögunnar. Ég hafði heyrt um þessa málningu hjá henni en ekkert pælt í henni fyrr en ég fór að spá í málningu á klukkuna. Og það sem ég varð ánægð með þessa málningu og hafði gaman af því að vinna með hana, það kom mér svo skemmtilega á óvart því nú þykir mér yfirleitt ekki mjög gaman að mála.

Milk Paint málning

Málningin er örugglega vistvænni en mörg önnur málning, hún er seld á duftformi og ekki bara einfalt að blanda hana með því að hræra hana út í vatn, heldur ótrúlega gaman að geta örlítið leikið sér með þykktina á henni. Eftir að hafa pússað létt yfir klukkuskápinn málaði ég með örlítið þynntri útgáfu af málningunni fyrst en hafði svo þykkri málningu sem þakti betur í seinni umferðinni. Liturinn sem ég valdi heitir marzipan - en bara að skoða lita úrvalið á síðunni hennar Stínu var hreinn unaður, sjá frábærlega fallega útfært litakort HÉR. Og svo var bara að rétt detta niður með sandpappír þar og hér eftir á til að fullkomna gamla lúkkið, eins og mig langaði að hafa það... og þá gat María fengið sinn sess. 

klukka fyirr og eftir

Eitthvað fannst mér örninn ekki nógu rólegur og yfirvegður fyrir hana Maríu mína svo ég gaf honum frí og smellti þarna upp litlum spörfugli sem ég átti og fullkomnar finnst mér friðinn og mýktina yfir Maríuskápnum. 

Það var ekki fyrr en ég tók klukkuna niður til að pússa hana að ég veitti litlum hliðargluggum athygli, klukkan var svo dökk fyrir og dökk filma eða himna á gluggunum að ég hafði hreinlega ekki tekið eftir þeim, þetta rann saman í eitt. Himnunni náði ég af með þokkalegu magni af vatni og sápu og þá fannst mér svolítið skemmtilegur bragur kominn á Maríuskápinn.

klukka fyrir og eftir

Mildir pastellitir Maríu njóta sín líka sérlega vel með svolítið hlutlausan og hráan bakgrunn...

María

 

María

Nú svo á tyllidögum má auðvitað skipta út fugli fyrir kórónu himnadrottningarinnar... Ég keypti þessa kórónu á skransölu á Spáni í fyrra og sé að þarna getur hún til dæmis haft hlutverk, litirnir í henni tóna ágætlega við klæðin hennar Maríu.

klukka fyrir og eftir

 

Og hér má svo sjá þau saman, klukkuna og Maríuskápinn minn. Örninn og klukkuverkið er að sjálfsögðu vel geymt og má hvenær sem er breyta skáp í klukku á ný. Ég á einmitt örugglega eftir að prófa að máta klukkuna í skápinn einhvern daginn. Mig myndi langa að sjá hana í skápnum svona ljósum, í sænskum Gustavian anda en stíllinn sá heillar mig alltaf jafn mikið. Ég þykist vita að einhverjir súpi hveljur yfir því að ég sé búin að skemma svona fallega klukku en þau hinu sömu mega vita að það er léttilega hægt að pússa skápinn upp aftur og gera hann dökkan á ný. Maríuskápurinn er bara vaxborinn en ekki lakkaður en vaxið fékk ég einmitt líka hjá Stínu Sæm. Fyrir nú utan það að nóg er sennlega eftir af dökkum klukkum í landinu, þó ein þeirra hafi skipt um hlutverk, að minnsta kosti í bili. 

klukka fyrir og eftir

Eins og þau sem þekkja mig sjá þá er Maríuskápurinn með sitt létta og hlýlega yfirbragð svo innilega mikið í mínum anda. Þó tíminn standi reyndar í stað á gömlu klukkunni, þá færir Maríuskápurinn finnst mér meiri frið og ró yfir herbergið með sínum ljúfu tónum.

Ef þið eigið eitthvað gamalt tréverk heima sem ykkur langar til að breyta, hvort sem það eru smáhlutir eða húsgögn, þá hvet ég ykkur til að skoða litina fallegu hjá Stínu í Svo margt fallegt og sjá hvort ykkur líst ekki vel á, svo er bara að vinda sér í verkið.


Athugasemdir