Pakkaskrautið

Desember er dásamlegur á svo margan hátt og ég á margar góðar minningar frá þessum árstíma. Dimmt úti, hlýtt og bjart inni. Ég get léttilega kallað fram í hugann góðar minningar við kortagerðina hér í denn. Fallegar glansmyndir og glimmer á fingrum og borði. Góð samvera með vinkonu. Eftirvæntingin liggjandi í loftinu. Og meira að segja minningin um ilminn af uhu líminu hefur sinn sérstaka sjarma.

Nú í byrjun desember lá leið mín á klúbbkvöld með Freyjunum, sem er vel skipaður saumaklúbbur frjórra og skemmtilegra kvenna. Ég hafði átt annríkt dagana á undan og hafði ekki náð að skipuleggja hvað ég ætlaði að skapa skemmtilegt þetta kvöld. Þessar stundir eru mér hins vegar dýrmætar og mikið tilhlökkunarefni.... og kemur ekki til greina að mæta tómhent. Það var því út úr neyð sem ég hentist hér í gegnum skúffur og skápa korteri fyrir klúbb og tíndi saman allt það sem mér mögulega datt í hug að ég gæti nýtt til að útbúa pakkaskraut fyrir jólin. Sumt af þessu kom ónotað aftur með mér heim og bíður þess að verða notað í eitthvað allt annað síðar. En það sem ég nýtti voru þessar klassísku blúnduservéttur og möffinsform...

Og þessar glansmyndir sem ég hafði einhvern tímann hnotið um í búð og gripið með mér heim, til seinni tíma nota. Það er nefnilega þannig að oft kaupi ég það sem höfðar til mín, jafnvel þó ég viti ekki alveg í augnablikinu í hvað ég ætla að nota það. Það skýrir sig yfirleitt sjálft seinna.

Og úr varð þessi líka himneski englakór... af pakkaskrauti.

Eins og oft áður var nokkuð um bleika tóna hjá mér... en ég passaði mig nú á að gleyma ekki alveg bláu smekkmanneskjunum sem ég þekki. 

Ég hef nú áður límt saman blúnduservéttu og glansmynd, og það oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. En aldrei áður hef ég blandað möffinsformi inn í það samspil. Vinkonur mínar í klúbbnum vildu hins vegar vita hvernig mér hefði dottið það í hug. Og mér hafði bara alls ekkert dottið það í hug. Hafði séð þessa hugmynd í norsku blaði og fannst hugmyndin ferlega flott til að fá svona þrívídd í skrautið. Það kom svo hins vegar í ljós þegar ég fletti upp á fyrirmyndunum í blaðinu að þar höfðu alls engin möffinsform verið notuð. Englanir norsku voru eftir allt saman hvorki íklæddir blúndu né möffinsformum. Þeir samanstóðu einfaldega af glansmynd og kreppappír. Svona getur nú minnisleysið leitt af sér nýjar hugmyndir. Og gaman af því. Aðal málið er að nýta bara það sem til fellur hverju sinni, skapa eitthvað nýtt og fallegt. Njóta stundarinnar um leið. 

 

 

 

 


Athugasemdir