Lítið ævintýri framundan

Það er margt sem kemur á óvart í lífinu og það er skemmst frá því að segja að ef mér hefði verið sagt það bara fyrir áratug að ég ætti eftir að gefa árlega úr dagatöl og tækifæriskort með ljósmyndum og textum eftir mig þá hefði ég hlegið að þeirri hugmynd, svo fjarstæðukennd hefði mér þótt hún og fráleit.

Ég var þá þegar búin að sérhæfa mig í líknarhjúkrun og hafði yndi af því að starfa við það fag, sem ég geri enn og gæti ekki hugsað mér annað starf. En svo er það nú bara þannig að þó ég sé hjúkrunarfræðingur þá er ég auðvitað fyrst og fremst bara ég sjálf, með einlægan áhuga á að fegra umhverfið og lífið sjálft, með alls konar aðferðum sem gefa mér svo mikið, vinda ofan af huganum eftir stranga daga og efla andann á endurnærandi og hvetjandi hátt.

Tækifæriskort Blúndur og blóm

Ein myndanna úr árgangi 2018

 

Ég hef alltaf haft gaman af alls konar föndri og að búa til eitthvað fallegt úr því sem til fellur. Mála húsgögn og breyta, nota það sem ég finn úti í náttúrunni og svo bara yfirleitt að stilla fallega upp og skapa mér og mínum notalegt umhverfi heima, bæði innanhúss og utan. Smám saman fór ég að taka myndir af ýmsu sem mér fannst fallegt og miðla á facebook og síðar á vefsíðunni minni. Það var svo einn daginn sem facebook vinur minn skrifaði það í athugasemd við mynd frá mér að ég ætti nú að henda þessari mynd sem ég hafði birt inn í samkeppni um dagatalsmynd sem var á döfinni þá. Ég kíkti á þetta en sá að myndirnar mínar pössuðu engan veginn þar inn. Ég var hvorki ljósmyndasnillingur né hafði áhuga eða dróna til umráða til að taka ævintýralega flottar landslagsmyndir. Ég hafði bara auga fyrir að stilla fallega upp og svo tók ég nógu margar myndir með ýmsum stillingum og frá ýmsum sjónarhornum þar til ég varð ánægð með útkomuna.

Tækifæriskort Blúndur og blóm

Janúarmyndin í árgangi 2018

Þetta vakti mig hins vegar til umhugsunar og gaf mér þá hugmynd að búa sjálf til mitt eigið dagatal með myndum eftir mínu höfði og síðan gæti ég látið prenta út nokkur auka eintök til að gefa í jólagjafir, þeim sem ég vissi að væru með svipaðn smekk fyrir svona stemningarmyndum eins og ég elska að hafa í kringum mig. Áður hafði ég nefnilega oft útvegað mér dagatöl frá útlöndum, með myndum sem höfðuðu þá til mín, en þarna spratt sem sagt upp sú hugmynd að velja uppáhaldsmyndirnar frá árinu og skella í dagatal fyrir næsta ár.  

Tækifæriskort

Síðan þetta var hafa hlutirnir undið skemmtilega upp á sig. Nú framundan er útgáfa á sjötta árgangi dagatala, um fimm mismunandi dagatöl er að ræða og frá því á síðasta ári hef ég einnig gefið út samúðarkort og nú í byrjun ágúst verða tækifæriskortin með ljósmyndum og textum eftir mig orðin á þriðja tug.

Og nú er það eitt skrefið enn, kannski lítið en samt svo stórt í mínum huga, eiginlega svolítið ævintýri. Nú verð ég í fyrsta skipti með vörurnar mínar til sýnis og sölu á Handsverkshátíðinni sem haldin verður á Hrafnagili 10.-13. ágúst næstkomandi. Í fyrstu fannst mér sem vörurnar ættu nú ekki heima þar, þar sem um HANDVERKShátíð væri að ræða, en það er víst löngu orðin hefð fyrir því að þar sé líka hönnun af ýmsu tagi, svo nú er bara að bretta upp ermar og hafa gaman af því að undirbúa hátíðina. Verið er að leggja lokahönd á undirbúning fyrir prentun þessa dagana og undanfarna daga höfum við hjónin notað frístundir til að pússa og mála gamlan skáp undir kort og svo kommóðu sem verður búðarborðið mitt á hátíðinni. Okkur er nú ekki að leiðast þetta stúss.

Handverkshátíð

Ást er... að pússa saman og mála búðarborð fyrir Handverkshátíð ;)

Ég hlakka mikið til að hitta ykkur sem eigið eftir að líta við!

Á Blúndur og blóm á facebook má fylgjast með framvindu og undirbúningi.

Með sólríkri sumarkveðju! 

 


Athugasemdir