Jólin kvödd

Þá er þessi dásemdartími, aðventan og jólin, að baki. Ég naut þess að vera í fríi inn á milli vakta og hér var dundað við eitt og annað á aðventunni, ofurlítið föndur í bland við bakstur, jólagjafainnkaup og skemmtilega innpökkun. Jólin sjálf síðan nýtt vel í samkennd, samveru, lestur og hvíld... í ró og næði. 

Það gafst ekki tími fyrr en í gær til að taka niður jólaskrautið en það er alltaf dálítið verk þar sem oftast er skreytt ríkulega. Ég byrja venjulega að skreyta í upphafi aðventu og er svo að bæta einu og öðru við fram á Þorláksmessukvöld. Eitt af því sem var nýtt hjá mér í ár voru þessar tvær gömlu krukkur sem mér áskotnuðst á nytjamarkaði í haust. Þær voru glærar en ég spreyjaði þær með frekar möttu lakkspreyi og skreytti með því sem til féll hér heima.

Þegar ég hafði bætt sýprus greinum við og fyllt krukkurnar af kertum sem áttu síðan að verða til afnota um jólin fengu krukkurnar gömlu sinn heiðurssess á kommóðunni í forstofunni ásamt gylltu hreindýrunum og fleira fíneríi. 

Luktina í forstofunni fékk ég í afmælisgjöf í sumar og hún hefur aldeilis komið að góðum notum nú þegar. Ég greip hana meðal annars með mér inn í Kjarnaskóg í haust og myndaði hana þar í bak og fyrir, sem varð til þess að hún prýðir september mánuð í dagatölunum mínum.

Nú um jólin nýtti ég mér svo að geta hengt gömlu skreyttu skautana mína í hana og þeir munu örugglega fá að hanga þar langt fram eftir vetri, enda alls ekki endilega neitt jólaskraut. Bara svona vetrarskraut :)

Gamla dúkkan sem ég keypti einu sinni á flóamarkaði í Danmörku og á heima í gamla dúkkuvagninum (sem ég fékk í Kolaportinu fyrir mjög mörgum árum) gerðist engill um jólin! Fékk þessa fínu vængi og nokkur rauð ber upp á punt...

Og loks fékk þessi uppáhalds trékassi í stofunni nýtt dót og gamalt að geyma...

Allt sem ég hef ekki valið að kalla vetrarskraut er nú komið ofan í kassa og allt verður eitthvað svo bjart, hvítt og kraftmikið þegar búið er að tína allt skrautið burtu. Og þar sem ég hef mjög gaman af því að stilla upp og skreyta heimilið mun ég örugglega njóta þess að gera einhverjar breytingar hér heima við á næstunni. 

Með ósk um gleðilegt nýtt ár, - og skapandi og skemmtilegt ár til ykkar allra!

 

 

 

 

 

 

 


Athugasemdir