Jólaföndrið - A4 jólaáskorun 2016

Ég tók fyrir nokkrum vikum hiklaust áskorun A4 Hannyrða og föndurs en hún fólst í því að ég mátti ve…
Ég tók fyrir nokkrum vikum hiklaust áskorun A4 Hannyrða og föndurs en hún fólst í því að ég mátti velja mér föndurvörur í A4 á Akureyri fyrir vissa upphæð gegn því að sýna síðan hér á síðunni minni hvað yrði úr efninu. Vegna anna dróst það þó og dróst hjá mér að fara í búðina að velja en loksins í þessari viku kom að því og starfsfólk A4 var svo elskulegt að leyfa mér að fylgja föndurlestinni sem var þó víst þotin hjá, þ.e.a.s. hinar bloggvinkonur mínar voru snarari í snúningum en ég og löngu með allt klárt!

 Blúndur og blóm

#A4-jólaáskorun 2016

A4 Hannyrðir og föndur 

 Ég var ekki lengi að velja mér þessar dásamlega fallegu myndir sem vöktu strax upp nostalgíuna í hjartanu svo um munaði. Ég tíndi auk þess til ýmsa tilfallandi smáhluti til skreytinga, skrautlímband og lím fyrir svona myndir. 

A4-jólaáskorun 2016

 

Myndirnar má líma nokkurn veginn á hvað sem er, þær eru bara rifnar varlega í sundur þannig að ójafnir kantarnir fái að njóta sín í stað þess að vera alveg klipptir og skornir. Í fönduráskorun A4 í fyrra þá límdi ég myndir á pappaöskjur svo nú langaði mig að breyta til. Á vegi mínum um heimilið í leit að einhverju sniðugu til að nota varð þessi gamli myndarammi sem smellpassaði utan um eina myndina. 

 

A4-jólaáskorun 2016

 

Ég límdi myndina með "Frosted Glass Laquer" á pappaplötuna í baki rammans og lakkaði síðan yfir hana með sama efni. (Mætti einnig nota "Modpodge" sem fæst líka í A4).

Þegar myndin var tilbúin fór ég aðeins hefðbundnari leið í notkun á svona myndum frá A4. Mér varð nefnilega hugsað til aðventutiltektarinnar í búrinu á bænum og mundi eftir öllum tómu krukkunum sem biðu þess að komast í einhverja góða notkun.

Krukkan hér að neðan er óvenju stór, enda fengin notuð úr mötuneyti á sínum tíma. Ég límdi myndina á krukkuna og lakkaði yfir, áður var ég búin að punta pínu með skrautlímbandi og loks setti ég blúnduborða, perluhring og innsiglaði svo allt saman með gylltri kórónu en allt fékkst þetta í A4.

 

A4-jólaáskorun 2016

 

Það má síðan nota svona krukku undir ýmislegt, mér datt til dæmis í hug að geyma jólakertin í henni, fylla hana af sprittkertum eða venjulegum háum kertum sem bíða þess að komast í notkun. Einnig mætti stinga stórum grenigreinum ofan í krukkuna og skreyta með könglum eða einhverju tilfallandi. Svo mætti setja í hana seríu...

en mér finnst einmitt alltaf svo skemmtilega lifandi að sjá ljós inni í svona fallegum krukkum þannig að ég fann stórt kerti sem passaði vel ofan í hana og til að gera enn meira jólalegt stakk ég rauðgreni úr skógarreitnum niður með kertinu. Ég lét nokkrar greninálar detta ofan í kertið til að freista þess að fá smá ilm af greni og jólum, það lukkaðist að nokkru leyti, þ.e. ilmurinn náði ekki út um allt eldhús en hann fannst vel nálægt kertinu. 

 

A4-jólaáskorun 2016

 

Að þessu loknu skreytti ég nokkrar minni krukkur (svona venjulegri krukkustærð!). Það getur verið mjög fallegt að líma á krukkur sem hafa verið spreyjaðar hvítar áður eða jafnvel notuð svona "frosting" áferð á þær.

Ég valdi hins vegar að hafa þessar bara glærar en hálf fyllti þessa krukku með grófu salti sem síðan er létt að stinga kerti í, hvort heldur sem er sprittkerti eða svona stóru hátíðlegu kerti sem stendur stöðugt djúpt á kafi í saltinu. 

 

A4-jólaáskorun 2016

 

Litlu krukkurnar má nota á marga vegu, til að stilla upp í eins og ég gerði hér að neðan. Það má líka setja logandi sprittkerti ofan í þær, nota þær undir brjóstsykur t.d. eða bara að skreyta  hrútaberjahlaupskrukkuna sem við ætlum að gefa í jólagjöf!

A4-jólaáskorun 2016

 

Og svo er það einn af uppáhalds notkunarmöguleikunum mínum, nefnilega að allt að því fylla krukkuna t.d. með sykri eins og ég gerði hér að neðan, og nýta krukkuna svo sem kertastjaka fyrir kertastubbana sem eru orðnir of litlir fyrir venjulega kertastjaka (lenda of djúpt ofan í þeim).

Einnig má nota salt eins og ég gerði áðan en ég mæli ekki með hrísgrjónum, þau brenna þegar kertið klárast, ég er búin að prófa það :)

Með þessu móti má gjörnýta út úr kertastubbunum öllum og það hentar nú aldeilis endurnýtingarhuganum mínum!

Svona krukkur með salti eða sykri í má líka nýta sem kertastjaka fyrir litlu mjóu kertin sem eru svo krúttleg en passa oft illa í kertastjaka, því stærri sem krukkan er því fleiri komast fyrir, það getur orðið hin fallegasta ljósaskreyting eina kvöldstund til dæmis.

A4-jólaáskorun 2016

 

 Ég hef alveg yndi af því að skreyta með því sem til fellur, eins og hér, með gömlum krukkum sem hefur aðeins verið hresst upp á, grenigreinum sem má grisja t.d. neðst af trjám í görðum eða skógarreitum og könglar og hnetur geta svo sett punktinn yfir i-ið.

A4-jólaáskorun 2016

Það er engu líkara en að myndin góða hafi alltaf tilheyrt þessum gamla ramma, ég hef grun um að þessi myndi eigi eftir að fylgja mér lengi, enda mjög í mínum nostalgíska anda.

Og enn á ég nokkrar myndir enn ónotaðar úr örkinum tveimru sem ég fékk í A4, ég mun finna þeim hlutverk síðar. Þær minnstu langar rmig t.d. að líma á stóra eldspýtustokka og síðan er bara að gefa hugmyndafluginu lausan tauminn. Þar sem ég tek þátt í Jól í skókassa verkefninu á hverju ári þá dettur mér t.d. í hug að upplagt sé að halda til haga alls konar öskjum sem falla til í jólagjöfum og afmælisgjöfum yfir árið, líma eða mála yfir starfi og merki á þeim og skreyta svo með svona myndum. Öskjurnar myndu svo nýtast undir skartgripi, ritföng, límmiða eða annað smátt sem fer í skókassanna til unglinganna. 

Ég skora á ykkur að láta verða af einni góðri föndurstund við tækfæri. Á mjög mörgum heimilum - og á öllum nytjamörkuðum t.d. - eru til bæði gamlar krukkur og myndarammar sem skemmtilegt væri að koma í endurnýjaða lífdaga þegar búið er að viða að sér myndum og skrauti í A4.

A4 Hannyrðir og föndur, takk fyrir mig!

Hér að neðan má svo sjá slóðir inn á vefsíður bloggvinkvenna minna sem einnig tóku áskorun A4, kíkið endilega inn á þeirra síður og fáið skemmtilegar hugmyndir, þær eru nefnilega alls konar!

Bjargey og co.

Dætur.is

Fífur og fiður

Frú Galin

Hvítir mávar

Mas

Pigment.is

Skreytum hús

Svo margt fallegt

Ynjur.is


Athugasemdir