Dagatöl og tækifæriskort Blúndu og blóma 2018 fáanleg!

Frá Handverkshátíðinni á Hrafnagili
Frá Handverkshátíðinni á Hrafnagili

Ég hefði ekki getað verið ánægðari með þátttökuna í Handverkshátíðinni, svona var staðan hjá mér eftir hátíðina, skrifað á facebook á mánudagskvöldinu: 

"Mér datt nú alveg í hug að það gæti verið gaman að taka þátt í Handverkshátíð og þess vegna sótti ég um. En þvílíkum og öðrum eins viðtökum og litla útgáfan mín fékk átti ég nú ekki von á. Ég sit hér hrist og hrærð á mánudegi eftir þessa fjögurra daga hátíð, þakklát manninum mínum sem eltir með mér draumana og dröslar með mér húsgögnum og þungum kössum til og frá, þakklát börnunum mínum sem hjálpuðu mér við afgreiðsluna og þakklát öllu því yndislega fólki sem leit við hjá okkur. Önnur myndin sem fylgir er af sælli en svolítið tættri konu í sýningarbásnum sínum í lok þriðja dags, þú sem þetta lest tekur til þín orðin á hinni myndinni, þau eru frá mér til þín."

 

Handverkshátíð Hrafnagili

 

Tækifæriskort Blúndur og blóm

Þessi texti er vinstra megin í opnu á einu af tækifæriskortunum mínum og birtist sömuleiðis þegar dagatalinu 2018 er flett og maí mánuður tekur við af apríl.  Í hverju korti er því einhver svona hlýleg, eflandi kveðja, og í hvert skipti sem dagatölunum er flett við mánaðarmót birtist ný kveðja til þín sem flettir, ásamt fallegri ljósmynd sem er ætlað að miðla notalegri stemningu til þín. 

Ég var nokkuð oft spurð að því á Handverkshátíðinni hvaðan ég fengi ljósmyndirnar og textana og því langar mig að nota tækifærið hér til að koma því á framfæri að þetta eru allt saman ljósmyndir sem ég stilli upp fyrir og tek - og textar sem ég skrifa, þegar ég hef setið og fengið til þess innblástur frá myndinni og aðstæðunum sem þær voru teknar í. 

blúndur og blóm

Hér er búið að smella einu kortanna í Ikea ramma, fer bara svona ljómandi vel.

Og hér er borðdagatalið sem ég hef alltaf sérstakt uppáhald á, svo krúttlegt og hentugt að tylla hvar sem er og þarf engan nagla! Ég hef verið með eitt við tölvuna og annað í eldhúsglugganum þar sem fljótlegt er að teygja sig eftir því þegar þarf að tékka á dagsetningum, þess á milli gleður það augað og sálina með myndunum og gullkornunum.

Borðdagatal Blúndu og blóma

Það er mitt hjartans mál að miðla ofurlítilli birtu og bjartsýni út í heiminn og þess vegna hafa myndatökurnar og skrifin, og þessi dagtala- og kortagerð orðið að mínu helsta áhugamáli og undið svona skemmtilega upp á sig með árunum. 

Aldrei áður hafa dagatölin verið komin út svona snemma og ég vona að það komi sér vel.

Ég bendi jafnframt á að enn er hægt að fá Skipulagsdagatalið 2017 og nokkur eintök af Barnadagatalinu 2017 á mjög lækkuðu verði, fyrir þau ykkar sem hafið ekki átt þau dagatöl og langar að byrja skipulagið núna strax að hausti, mæli með!

Hér efst á síðunni er síðan hægt að skoða hvar vörurnar mínar eru fáanlegar.

 

Blúndur og blóm lógó

 

 


Athugasemdir