Blómstrandi útgáfutíð

Desember er alltaf í sérlegu uppáhaldi hjá mér. Fyrir utan aðventuna og allt undrið sem henni fylgir framan af desember, þá er desember í mínum huga mánuður uppskeruhátíðar. Eftir að hafa lagt grunninn og unnið að nýjum árgangi dagatala í frítíma mínum af og til allt árið, með alls konar pælingum, uppstillingum og myndatökum, sífellt á höttunum eftir rétta veðrinu, þá ríkir jafnan mikil eftirvænting að fá dagatölin í hendurnar, glæný úr prentun. Á hverju ári hefur einhver nýjung litið dagsins ljós. Á hverju ári held ég líka að nýjungin sé sú síðasta sem mér dettur í hug... en alltaf koma nýjar hugmyndir í kollinn og það gerðist líka á þessu ári.  

 

 

Þannig að, í fyrsta skipti gef ég líka út tækifæriskort með ljósmyndunum og textunum mínum úr árgangi 2017. Kortin eru seld öll tólf saman í pakka og má nota við alls konar tækifæri. Þau eru jafn ólík og þau eru mörg en er öllum ætlað að vekja hughrif þeirra sem við kortunum taka, með stemningar ljósmyndum og uppbyggilegum orðum til innblásturs. Hvað er betra en að eiga tilbúinn bunka tækifæriskorta að velja úr þegar mikið liggur við? Og að ári verða svo til ný kort, með nýjum myndum og nýjum textum. 

 

Tækifæriskort

 Eins og dagatölin er hægt að kaupa tækifæriskortin hér á vefsíðunni.

Einnig varð loksins að veruleika sú ætlun mín að gefa út samúðarkort. Ég hef lengi starfað við líknarhjúkrun og hef oft upplifað hve fólki finnst erfitt að koma í orð þeirri samkennd sem það upplifir og langar að tjá með uppbyggilegum hætti þegar vinir eða kunningjar hafa misst nákominn. Ég hef því unnið að texta sem ef til vill svarar þörf einhvers og nú er sá texti kominn út í samúðarkorti í tveimur mismunandi stærðum. Mynd sem tekin var á fallegu síðkvöldi í túninu hér heima prýðir kortin. Vonandi munu samúðarkortin verða fáanlega í ýmsum blómabúðum þegar fram líða stundir. Ég þigg gjarnan að fá að vita af blómabúðum og öðrum litlum verslunum í ykkar byggðarlagi sem þið hefðuð áhuga á að fá kortin í. 

 

Samúðarkort

 Í túninu heima. Lifandi ljós og daggardropi á hverju strái. Fuglinn frjáls, svífur á braut.

Dagatölin eru síðan jafn mörg og áður, - Ljósmyndadagatal með reitum til að skrá í (tvær stærðir), Skipulagsdagatal fjölskyldunnar, Borðdagatalið og síðast en alls ekki síst, Barnadagatalið. Sum dagatalanna seldust upp hjá mér í afmæli Hjartalags síðasta föstudag en nú á ég von á nýrri prentun fyrir helgina svo það er um að gera að líta á úrvalið hér á síðunnu og panta ef ykkur líst svo á. Þetta er falleg og nytsamlega gjafavara sem létt er að senda hvert í heim sem er, nú eða bara til að eiga sjálf og njóta. 

 

Aðventan

Njótum líka aðventunnar, hlúum að okkur og öðrum... hugleiðum, upplifum, verum til.

 

 

 


Athugasemdir