Á frostköldum degi við fjörðinn

Á dögunum átti ég frídag á sérlega björtum og fallegum vetrardegi. Framundan var vinnuhelgi svo ég var ákveðin í að nýta þennan dag vel til hvíldar og uppbyggingar. Sólin skein á hvítar fannir og sú sjón var alltof lokkandi til að hanga innan dyra enda sá ég að þetta var tilvalinn dagur til að ná að taka fallegar ljósmyndir úti, hugsanlega fyrir dagatöl næsta árs. Eins og þau vita sem þekkja ljósmyndirnar mínar þá dugar mér yfirleitt ekki að fara bara út með myndavél, það þarf alltaf einhver gamall munur (eða gamlir munir!) að vera með í för til uppstillingar. Þannig mynda ég síðan samspil mannshandarinnar og náttúrunnar við ýmsar aðstæður og í alls konar veðri, mér til ánægju og yndisauka.

Þennan dag varð brúðarkjóllinn hennar mömmu fyrir valinu. Ég kippti honum og gínunni minni með og dreif mig af stað því sólargangurinn er stuttur og ekki eftir neinu að bíða á þessum árstíma, gefist færi til að mynda. Það er skemmst frá því að segja að ég gleymdi mér... tímunum saman. Kom heim og fór út aftur því birtan var falleg allt fram á kvöld. Ég á því margar myndir frá þessum degi og deili hérna nokkrum uppáhalds.

Þessi mynd þótti mér sérlega töfrandi. Blúndublámi í dansandi takti við fannhvíta snjókristalla. 

Mamma og pabbi giftu sig í Faxaskjóli í Reykjavík þann 10. janúar 1959. Pabbi var heima hjá foreldrum sínum hér fyrir norðan í aðdraganda brúðkaupsins en mamma heima hjá foreldrum sínum í Reykjvík. Hún valdi sjálf efnið í kjólinn sem var sérsaumaður á hana. Sum ykkar muna kannski eftir færslunni minni um kjólinn hennar mömmu sem má sjá hér.

Þessi mynd gæti hugsanlega orðið janúar myndin í dagatalinu mínu á næsta ári. Aldrei að vita. Hér er kjóllinn staddur við Leirunestið við Drottningarbrautina á Akureyri. Hann vakti nokkra athygli þar og fékk ég áhorfendur að myndatökunni um stund. Skal nú engan furða. Þetta var allt saman frekar mikið úr stíl við trukkana þarna á planinu. 

Horft inn Eyjafjörð, fram í Garðsárdal.

Og hér er hann kominn heim í sveit þegar líða fór á daginn. Glæsilegur þessi dásemd.

Og svo var tekið smá tjútt...

Og svifið í hita leiksins... það ætti aldrei að kvarta undan íslenskri golu.

 Tunglsljósið tók svo við sólskininu á þessum fallega janúardegi. Skemmtilegur, endurnærandi og eftirminnilegur dagur, ég gleymi honum seint...

og tileinka daginn og myndatökuna að sjálfsögðu 57 ára brúðkaupsafmæli foreldra minna fyrr í þessum mánuði. Þau voru orkuboltar bæði tvö, skemmtilega skapandi og úrræðagóð - og þau sem langar að lesa meira um sögu kjólsins, og þar með þeirra, geta kíkt á gömlu færsluna mína af eldri vefsíðunni: Brúðarkjóllinn hennar mömmu 

Með ósk um ljúfa og góða helgi ykkur til handa, farið vel með ykkur.

 

 

 

 

 


Athugasemdir